Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Íbúagátt Endurvinnslukort

Spurningin

Hvað skoðar þú vef Dalabyggðar oft?
3. febrúar 2012 19:08

Sveitasíminn

  

Í ár eru 100 ár liðin síðan sími kom fyrst í Dalina. Árið 1912 var lagður sími til Stykkishólms frá Brú í Hrútafirði. Og þar sem sú lína var lögð eftir Laxárdalnum og Suðurdali komst símasamband einnig á hér í Dölum.

 

Í upphafi kom annars flokks símsstöð í Búðardal og þriðja flokks símstöðvar á Harrastöðum og Bugðustöðum. Síðar kom sími í Hvammssveit, Fellsströnd að Staðarfelli og í Saurbæinn. Og enn átti eftir að líða nokkur tími þar til símasamband kom á Skarðsströnd og í Klofning.

 

Þó símsambandi væri komið á í sveitirnar var langt frá því að sími væri á hverjum bæ. Heldur voru símstöðvar í hverri sveit og þangað farið til að hringja og menn sóttir í símann á milli bæja.

 

Árið 1955 var lokið við að leggja síma á hvern bæ í sýslunni sem þess óskaði og blómatími sveitasímans upphófst. Sérstakar hringingar voru fyrir hvern bæ byggðar upp af stuttum og löngum hringingum. Og ekki þurfti dómsúrskurði til hlerunar.

 

Byggðasafni Dalamanna hefur gegnum árin áskotnast símhringingar úr Hvammssveit, Fellsströnd, Klofningi og Saurbæ. Nú er ætlunin að safna því sem upp á vantar af hringingum, þ.e. Skógarströnd, Hörðudal, Miðdölum, Haukadal, Laxárdal og Skarðsströnd.

 

Á síðum Byggðasafnsins er sérstakur kafli um sveitasímann þar sem áhugasamir geta rifjað upp símhringingar og sent inn ábendingar og annan fróðleik tengdan sveitasímanum. Allar upplýsingar eru vel þegnar að vanda.

 

Smávægileg tæknileg mistök urðu til þess að ekki var hægt að senda inn ábendingar fyrir allar sveitir, en nú á það að vera komið í lag. Svo er alltaf hægt að senda póst beint á safnamal@dalir.is

 

Byggðasafn Dalamanna - sveitasíminn