Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur um þóknun til kjörinna fulltrúa

sveitarfélagsins Dalabyggðar


1. gr.

Sveitarstjórnarmenn sem og aðrir kjörnir fulltrúar í nefndum og ráðum sveitarfélagsins fá greidda þóknun úr sveitarsjóði fyrir störf sín í sveitarstjórn skv. þessum reglum.

 

Greitt er fyrir setu á formlegum fundum sveitarstjórnar og nefnda þar sem færð er fundargerð sem tekin er til afgreiðslu sveitarstjórnar.

 

2. gr.

Grunnlaun

Greiðslur taka mið af launaflokki 122, þrep 4 (6%) í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu eins og hann er á hverjum tíma.

 

Almennur sveitarstjórnarmaður fær 20% af mánaðarlaunum fyrir hvern mánuð og að auki 6% fyrir hvern setinn fund.

 

Fulltrúi í byggðarráði fær 30% af mánaðarlaunum fyrir hvern mánuð og að auki 6% fyrir hvern setinn fund.

 

Oddviti fær 30% af mánaðarlaunum fyrir hvern mánuð og að auki 6% fyrir hvern setinn fund.

 

Formaður byggðarráðs fær 35% af mánaðarlaunum fyrir hvern mánuð og að auki 6% fyrir hvern setinn fund.

 

Í þóknun fulltrúa byggðarráðs, oddvita og formanns byggðarráðs er innifalin þóknun almenns sveitarstjórnarmanns.

 

Nefndarmaður fær 6% fyrir hvern setinn fund.

 

Formaður nefndar þar sem ekki er starfsmaður til aðstoðar fær 10% fyrir hvern fund.

 

Sveitarstjórnar- og nefndarmenn sem sitja fundi og ráðstefnur utan sveitarfélags fá 10% fyrir hvern fund.  Viðkomandi ber sjálfur ábyrgð á að koma upplýsingum um fundi og akstur til launafulltrúa.

 

3. gr.

Ferða- og dvalarkostnaður

Sveitarstjórnarmaður á rétt á að fá aksturskostnað greiddan þegar um er að ræða akstur á fundi sveitarstjórnar og nefnda eða akstur á fundi eða ráðstefnur utan sveitar.  Greiðslur taka mið af akstursgjaldi ríkisstarfsmanna eins og það er á hverjum tíma.

 

Sveitarstjórnarmaður á rétt á að fá dvalar- og uppihaldskostnað greiddan ef hann situr fundi og ráðstefnur utan sveitarfélags.  Greiðslur taka mið af fram lögðum reikningum sem sveitarstjórnarmaður ber sjálfur ábyrgð á að koma til launafulltrúa.  Þetta gildir ekki í þeim tilfellum þegar reikningar eru sendir til sveitarfélagsins af fundarhaldara/gististað.

 

4. gr.

Laun í orlofi,  lífeyrisréttindi og tryggingar

Sveitarstjórnarmenn fá greidd mánaðarlaun skv. 2. gr meðan á sumarleyfi sveitarstjórnar stendur.

 

Dalabyggð heldur eftir iðgjaldi í lífeyrissjóð að launum sveitarstjórnarfulltrúa skv. ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.  Greitt er iðgjald í Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga nema óskað sé eftir því að greitt sé í annan lífeyrissjóð.

 

Sveitarstjórnarmenn eru tryggðir gegn slysum í starfi með sama hætti og starfsmenn Dalabyggðar.  

 

5. gr.

Greiðslur

Sveitarstjórnarmenn og nefndarmenn fá greitt mánaðalega.  Fundarseta er greidd skv. fundargerðum sem sveitarstjórn hefur staðfest.

 

6. gr.

Gildistaka

Reglur þessar eru settar skv. 25. gr. Samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðar og eru í samræmi við fyrri samþykktir sveitarstjórnar um þóknun sveitarstjórnarmanna. 

 

Reglurnar voru staðfestar á fundi sveitarstjórnar 20. febrúar 2018 og taka þegar gildi. 

 

Ákvæði til bráðabirgða

Ákvæði 1. mgr. 2. gr.  um launaþrep tekur gildi frá og með næsta kjörtímabili sveitarstjórnar (2018-2022).  Þar til gildir launaflokkur 122 með 0% álagi svo sem verið hefur.

 

Búðardal, 22. febrúar 2018

  

Sveinn Pálsson
Sveitarstjóri